Stjórn Orkuveitunnar (Orkuveita Reykjavíkur) samþykkti á fundi sínum í dag árshlutareikning fyrstu níu mánaða ársins 2025. Hagnaður varð af rekstrinum sem nam 6,7 milljörðum króna. Á sama tímabili 2024 var hagnaðurinn 5,1 milljarður og afkomubatinn því 31%. Rekstrartekjur uxu um 3,9% á tímabilinu milli ára en rekstrarkostnaður um 2,0%. Árshlutareikningurinn er fyrir samstæðu Orkuveitunnar. Innan hennar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.
Traustur fjárhagur
„Við viljum svara kalli stjórnvalda um aukið öryggi og áfallaþol grunnþjónustu samfélagsins og höfum lagt áherslu á aukna orkuöflun, ekki síst fyrir hitaveitur Veitna en einnig aukna sjálfbæra raforkuframleiðslu,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar. „Við erum líka tilbúin að verja vatnsveitur og vatnsból betur fyrir hættum og slakur árangur heimsbyggðarinnar í loftslagsmálum með tilheyrandi hækkandi sjávarstöðu gerir framtíðarhorfur fráveitnanna snúnari,” bætir Sævar Freyr við. Veltufé frá rekstri, sem meðal annars nýtist til að standa undir fjárfestingum, nam 22,1 milljarði króna fyrstu níu mánuði ársins. Það er 6,9% aukning frá fyrra ári.
Yfirlit stjórnenda
| Rekstrarár | 2025 | 2024 | 2023 | 2022 | 2021 |
| Fjárhæðir eru á verðlagi hvers árs í milljónum kr. | 1.1.-30.9. | 1.1.-30.9. | 1.1.-30.9. | 1.1.-30.9. | 1.1.-30.9. |
| Rekstrartekjur | 49.984 | 48.277 | 43.327 | 39.741 | 37.663 |
| Rekstrarkostnaður | -20.960 | -20.549 | -17.736 | -15.516 | -13.339 |
| þ.a. orkukaup og flutningur | -5.028 | -5.373 | -4.993 | -4.884 | -4.174 |
| EBITDA | 29.024 | 27.728 | 25.591 | 24.225 | 24.325 |
| Afskriftir | -12.817 | -12.495 | -11.544 | -10.449 | -9.966 |
| Rekstrarhagnaður EBIT | 16.207 | 15.233 | 14.047 | 13.776 | 14.359 |
| Sjóðstreymi | |||||
| Innleystar vaxtatekjur | 274 | 196 | 117 | 64 | 109 |
| Greidd vaxtagjöld | -6.182 | -5.768 | -5.119 | -3.437 | -3.174 |
| Handbært fé frá rekstri | 25.473 | 24.650 | 22.445 | 21.714 | 21.832 |
| Veltufé frá rekstri | 22.095 | 20.666 | 19.650 | 19.507 | 18.798 |
| Lausafé | 30.9.2025 | 30.9.2024 | 30.9.2023 | 30.9.2022 | 30.9.2021 |
| Bundnar innstæður og markaðsverðbréf | 16.100 | 10.229 | 11.273 | 13.962 | 13.195 |
| Handbært fé | 10.517 | 9.743 | 5.131 | 7.499 | 17.998 |
| Óádregnar lánalínur | 29.385 | 13.080 | 8.850 | 4.500 | 10.198 |
| Lausafé samtals | 56.002 | 33.052 | 25.253 | 25.961 | 41.391 |
Breytt fjárhagsspá Orkuveitunnar
Þrátt fyrir sterka fjárhagsstöðu Orkuveitunnar samþykkti stjórn á fundi sínum í dag breytingar á fjárhagsspá samstæðunnar, sem gefin var út 7. október síðastliðinn. Ástæðan er að Norðurál, stærsti einstaki viðskiptavinur samstæðunnar, hefur upplýst Orkuveituna um að greiðslufall verði af hálfu fyrirtækisins vegna endurtekinna bilana í álveri þess á Grundartanga. Breytingarnar á fjárhagsspánni fela í sér;
- 1,0 milljarða króna lægri rekstrarhagnaður á yfirstandandi ári en í fyrri spá.
- Niðurskurð rekstrarkostnaðar um 2 milljarða króna á árinu 2026.
- 6 milljarða króna lækkun fjárfestinga á því ári.
- Lækkun arðgreiðslna um 2 milljarða króna á árinu 2026.
„Við verðum að sýna þá ábyrgð að draga saman seglin tímabundið, komi til þess að tafir verði á umsömdum greiðslum fyrir rafmagnið. Það getur varað allt árið 2026, samkvæmt upplýsingum frá Norðuráli,“ segir Sævar Freyr.
Samkvæmt raforkukaupasamningi Orkuveitunnar og Norðuráls ber fyrirtækinu að greiða fyrir umsamda orku, hvort sem fyrirtækið nýtir hana eða ekki. Nú liggur hinsvegar fyrir yfirlýsing um að fyrirtækið muni einungis greiða fyrir það rafmagn sem álverið getur tekið á móti meðan gert er við bilanir í því.
„Ef marka má þær yfirlýsingar sem eigandi Norðuráls hefur gefið markaðsaðilum í Bandaríkjunum er Norðurál tryggt fyrir sínu tjóni, enda sé þetta almenn bilun. Tilkynning Norðuráls til Orkuveitunnar er hinsvegar á þeim nótum að boðað greiðslufall sé vegna óviðráðanlegra atburða á borð við eldgos eða stríðsátök. Þarna virðist mér ósamræmi. Við munum fá rafmagnið greitt – á því leikur enginn vafi í mínum huga – en það eru mér mikil vonbrigði að fyrirtækið kjósi að haga sér með þessum hætti, að greiða ekki samkvæmt samningum en gera ráð fyrir að samningsbundin raforka sé tiltæk þegar því hentar,“ segir Sævar Freyr.
Nánari upplýsingar:
Snorri Hafsteinn Þorkelsson
framkvæmdastjóri fjármála
snorri.hafsteinn.thorkelsson@orkuveitan.is
- Fjárhagsspá Orkuveitunnar 2025-2030 – Uppfærð í nóvember 2025
- Orkuveita Reykjavíkur – samandreginn árshlutareikningur samstæðu 1.1.-30.9.2025








